Regin Freyr Mogensen

Regin

Regin vinur okkar féll frá 29. október eftir tíu mánaða baráttu við heilakrabbamein. Við eigum margar minningar um þennan góða dreng og viljum reyna að koma einhverjum þeirra á framfæri hér. Þessi litla síða verður eflaust í vinnslu næstu daga og vikur, fleiri sögur og myndir munu bætast við. Ef þið viljið koma ábendingum á framfæri hafið þá endilega samband við einhvern okkar, t.d. á Facebook.

Davíð Torfi Ólafsson, Einar Már Björgvinsson, Eiríkur Steinarsson, Matthías Ásgeirsson, Ólafur Þór Kristjánsson.

Ungdómurinn

Við kynntumst Regin fyrir rúmum 23 árum þegar hann, Einar, Davíð og fleiri byrjuðu í hljómsveitinni Möbelfakta. Regin var þá á sautjána ári. Í kjölfarið myndaðist vinahópur krakka sem tengdist þeim, hópur sem hefur haldið sambandi til dagsins í dag.

Þegar við hittum Regin fyrst var hann ekki alveg sami rokkarinn og síðar. Klæddur í of stuttar gallabuxur, röndóttar skyrtur með of stuttum ermum, blaser-jakka og svarta spariskó.

Hljómsveitin Möbelfakta
Hljómsveitin Möbelfakta í æfingahúsnæði árið 1990. Frá vinstri: Regin, Jói Palli, Helgi, Einar Már. Davíð Torfi fremstur.

Þegar menn voru byrjaðir í rokkhljómsveit þurfti auðvitað að rokka sig upp, safna hári (menn bruddu meðal annars þaratöflur) og dressa sig, kúrekastígvél og leðurjakki urðu nýja lúkkið á Regin og það fór honum afskaplega vel. Gibson Les Paul ‘68 custom made gítarinn skemmdi ekki fyrir. Á ótrúlega skömmum tíma umbreyttist Regin í síðhærða vöðvastælta rokkarann sem við munum eftir þegar við hugsum til baka.

Tónlistarlegur bakgrunnur Regins var töluvert frábrugðinn þeim sem var í Möbelfakta, við vorum þunga/glys rokkarar en Regin nýlega byrjaður að spila á gítar og þá helst blús og annað á þeim nótununum. Hafði hann orð á því í fyrstu að honum fyndist hann ekki nægilega góður gítarleikari, því að gítarsóló í blúsnum voru ekki gítarhetjusóló eins og tíðkaðist í þungarokkinu. Allir vorum við nú duglegir að skemmta okkur og höfðum ekki miklar áhyggjur af því að æfa okkur stíft, nema Regin. Á meðan restin af bandmeðlimum skáluðu hressilega og staupuðu sig hratt, var Regin heima að æfa sig í skölum og annarri gítarfærni með almennilegt gítarhetjusóló að markmiði. Þannig gekk þetta fyrsta veturinn hjá honum og fyrr en varði hafði honum flogið svo ört fram að upphófst ægileg gítarhetjubarátta milli mín og Regins sem helst má lýsa sem áráttu. Hvorugur okkar ætlaði að verða undir. Dæmigert fyrir þann metnað og þor sem Regin bjó yfir.

Það er einnig lýsandi fyrir Regin hvernig hann efldist í gegnum þessi fyrstu ár í hljómsveitinni. Í fyrstu var hann frekar hlédrægur og fylgjandi öðrum í bandinu en hægt og bítandi fór hann að taka við stjórn sem gerði hann að leiðtoga hljómsveitarinnar þegar uppi var staðið. Hann hafði sterkar skoðanir og skýra sýn á lagasmíðinni og leitaðist ávallt við að allir gáfu sitt besta. Við urðum allir ósjálfrátt hans fylgjendur. Þetta er það sem Regin var: Hinn þögli leiðtogi.
Einar Már
Regin hafði fjölbreyttan tónlistarsmekk og hlustaði ekki bara á rokk þó það væri oftast græjunum hjá okkur vinunum. T.d. vorum við strákarnir óskaplega hrifnir af Tori Amos. Ég og Regin sáum hana spila á Hótel Borg 23. júlí 1992. Hún var ein, spilaði á píanóið og söng eins og engill. Sat klofvega á bekknum og sneri að salnum, píanóið vinstra megin - sveiflaði rauðum lokkunum. Við stóðum dolfallnir í salnum, kynþokki hennar var magnaður. Við vorum báðir ástfangnir af þessari gyðju eftir tónleikana og höfum oft rifjað þá upp.
Matti

Lyftingar voru eitt af því sem hann tók sér fyrir hendur og voru partur af nýja “lúkkinu”. Það var ekkert verið að fara í WC eða aðrar “fansí” járnhallir, heldur reif hann í lóðin í svitabúllunni hjá Júlla Bess undir íþróttahúsinu á Strandgötu. Þarna var sannkallaður Rocky fílíngur, sviti, öskur og dragfúlt andrúmsloftið. Regin var alsæll á hverjum degi græjaður super megamass dufti og banana.

Regin dró mig í þetta byrjun árs 1991 og var meiri að segja svo mikill öðlingur að sækja mig út á Álftanes frá Kópavogi til þess að geta farið í ræktina í Hafnarfirði. Ég gafst nú fljótt upp á þessu því ég hafði ekki sama metnað á þessu sviði og en Regin. Hann hafði sett sér markmið í lok árs 1990 að vera algerlega áfengislaus allan Janúar mánuð. Þar með gat hann einbeitt sér að lyftingum og þetta fannst manni náttúrulega bara bilun á þeim tíma, vera án áfengis í heilan mánuð og bara lyfta lóðum.
Einar Már

Hljómsveitin Möbelfakta tók þátt í Músíktilraunum árið 1991 og komst úr úrslit. Á þeim tíma fór grunge tónlistin að slá í gegn og hún höfðaði til strákanna. Siggi Run kom til sögunnar og hljómsveitin Bone China var stofnuð.

Það voru uppi stórir draumar um að "meika það" erlendis. Allt var sungið á ensku og nafnið Bone China fengum við frá hljómsveitinni Mother Love Bone sem við horfðum mikið til á þessum árum. Bone China er besta postulínið og vildum við með þessu segja að við værum óbrjótanlegir. Já það vantaði ekki sjálfstraustið á þessum árum. Fljótlega gerðum við safnplötusamning við Spor sem gaf út þrjár safnplötur á árunum '92 til '94 þar sem Bone China var með lög. Þetta var ákaflega skemmtilegur tími og var Regin með sitt síða rauða hár og háa vöxtin mjög eftirminnilegur. Upp úr 1994 fór það svo að hljómsveitin lognaðist út af og menn snéru sér að alvöru lífsins. Vinnu og frekara námi.
Davíð Torfi

Á youtube má finna tvö myndbönd með hljómsveitinni Bone China, lögin Hesitation og View of life. Einnig er til upptaka af því þegar hljómsveitin kom aftur og spilaði á tónleikum í desember á síðast ári.

Hljómsveitin Bone China
Bone China: Regin, Tóti, Siggi Run, Einar Már, Davíð Torfi. Myndin er ekki í réttum skala, Regin var hæstur en söngvurum er gjarnan hampað.

Auðvitað var mikið djammað á þessum tíma, öll tækifæri notuð til að gera sér glaðan dag. Partí í heimahúsum, æfingahúsnæði og jafnvel bara í bílnum ef ekkert annað var í boði.Meðal þess sem menn tóku sér fyrir hendur var léttvínsbrugg í kjallaranum heima hjá Regin. Þetta var auðvitað mikil búbót fyrir fátæka námsmenn sem vildu skemmta sér. Reyndar vantaði stundum þolinmæðina sem þarf við vínbruggun. Vínið var tilbúið þegar á þurfti að halda og urðu kvöldin stundum dálítið skrautleg af þeim sökum, það sama má segja um dagana eftir. Gruggugt heimabrugg er göróttur drykkur.

Regin var alltaf ábyrgur og til marks um það ákvað hann snemma árs 1993 að bjóða sig fram í gæslustörf á FG balli sem haldið var í Garðaholti. Þetta þótti mönnum alger fásinna; að vera í gæslu í staðin fyrir að skemmta sér á balli en ef Regin var ákveðinn í einhverju lét hann slag standa þrátt fyrir mótbárur annarra. Hafði verið ákveðið að eftir ballið myndi hann gista í foreldrahúsum vinar síns sem þá var einn heima. Þegar ballinu lauk fór Regin í foreldrahús vinar síns og lagðist til svefns á meðan vinurinn var enn á ballstaðnum með öðrum nemendum. Fyrr en varði fóru gestir að streyma heim til vinarins í von um partý en Regin vísaði þeim umsvifalaust á brott enda passaði hann með ábyrgðarfullum hætti híbýli vinar sins. Fljótlega varð honum þó ljóst að um vonlausa baráttu var að ræða þegar vinurinn birtist, fremstur í fararbroddi, með fulla rútu af ölvuðum ballgestum á leið í partý. Þetta er einmitt það ábyrgðarfulla eðli sem Regin bar með sér og sennilega ástæðan fyrir því að fólk bar alltaf mikla virðingu fyrir honum. Hann gerði sitt til þess að halda hlutunum saman.

Bláa súkkan

Regin átti bara bíldruslur í gamla daga. Eftirminnilegust er blá súkka sem hann ók lengi. Hún er meðal annars eftirminnileg vegna þess að hún var alltaf á mörkum þess að vera bensínlaus. Það var ekki alltaf til mikill aur og Regin átti það til að fara á bensínstöð, skrúfa niður rúðuna og rétta starfsmanni á plani klink með skilaboðum um að dæla nú 78 krónum í tankinn. Svo var rúðan skrúfuð upp aftur á gapandi bensíngaurinn. Aftur í súkkunni voru stofuhátalar tengdir við bílgræjunar sem óspart voru notaðar. Þar kynnti Regin vini sína fyrir tónlist af ýmsu tagi, t.d. Red Hot Chili Peppers og Pantera.

Einu sinni fórum við félagarnr í hljómsveitinni sex á tveimur bílum, bláa Suzuki bílnum hans Regins og hvíta víkingnum hans Einars, upp í bústað til að "semja lög". Lítið var samið en meira skemmt sér - svo vel reyndar að á laugardegi var allur gleðivökvi búinn og ákveðið að bruna í Borgarnes, allir í Hvíta Víkingnum sem gafst upp þegar ferðin var hálfnuð. Nú voru góð ráð dýr. Bankað var á næsta bóndabæ og var upplitið á húsfreyjunni ekki upp á marga fiska þegar við stóðum sex síðhærðir gaurar og fórum yfir þessa harmsögu. Það fór svo að okkur var skutlað upp í bústaðinn aftur og ákveðið að daginn eftir myndu Regin og ég bruna í bæinn og sækja annan bíl til að ferja þá sem eftir voru í bústaðinum. Það er skemst frá því að segja að ferð sem alla jafna tekur eina og hálfa klukkustund tók tólf stundir í hríðarbyl og tvisvar keyrðum við út af með tilheyrandi veseni og á köflum þurfti ég að labba á undan bílnum. Þrátt fyrir þetta basl þá var þetta hin besta skemmtun fannst okkur og hefur þessi saga oft verið sögð. Hvíti Víkingurinn stóð í hlaði bóndans í einhverja mánuði fram að leysingum.
Davíð Torfi

Ungir menn á uppleið

Einhvern veginn lá það fyrir að Regin myndi vegna vel í lífinu. Slíkur var metnaðurinn og staðfestan. Til dæmis var það nr eitt hjá okkar manni að mennta sig á meðan sumir fundu sig ekki í skólabókum. Við vissum alltaf að Regin var klár. Það var því ekkert óvænt þegar hann tók lögfræðina með annarri. Það vakti víst athygli þegar síðhærði rauðhærði rokkarinn tók almennuna með trompi í fyrstu tilraun. Frami hans í starfi kom okkur ekki heldur á óvart, hann réð við þetta allt saman og stefndi hátt.

Regin hafði líka trú á sjálfum sér. Í matarboði í Bakkaseli árið 2002 er eftirminnlegt þegar hann sagði að hann væri kannski með mesta skallann af öllum á staðnum en hann væri samt mestin folinn. Eftir það fékk hann viðurnefnið Regin frá Þúfu eftir frægum stóðhesti. Regin kunni vel við það viðurnefni.

Í gamla daga fórum við stundum í fótbolta á túninu á Arnarnesi eða á öðrum sparkvöllum. Regin var alltaf merkilega sprækur í boltanum. Fyrir nokkrum árum plataði ég hann með mér í fótbolta í hádeginu virka daga og á laugardögum og Regin var duglegur að mæta. Hann var sprækur eins og áður, miklu betri en ég átti von á, með fínan hægrifót og skoraði reglulega með þrumuskotum. Eftir boltann ræddum við svo oft á msn um frammistöðuna í boltanum og fórum yfir það hverjir hefðu verið að standa sig og hverjir ekki. Þegar Regin færði sig yfir í Kaupþing árið 2007 hafði hann lítinn tíma í hádegisboltann en hélt áfram að mæta á laugardögum.

Svo sneri hann sig mjög illa á ökkla í fótbolta með bankamönnum eða lögfræðingum, ég man ekki hvort það var, og hætti eftir það að sparka í tuðru. Vildi geta haldið áfram að hlaupa á fjöll og heiðar. Ég saknaði þess alltaf að hafa misst þessar stundir okkar í fótboltanum.
Matti

Regin var mikill útivistar- og veiðimaður. Ljómaði þegar hann sagði veiðisögður og mundaði oft ósýnilega haglabyssu þegar hann sá gæsir í borginni. Við hinir fyrir utan Eika vorum ekki alveg sömu fjallageiturnar.

Einu sinni fór ég í rjúpnaferð á Ármúla með Regin og tveim lýtalæknum. Ég átti ekki að skaffa neitt, þeir sáu bæði um mat og drykk. Ég mætti samt með eina rauðvín til að koma með eitthvað en hún smakkaðist eins og skólp í samanburði við það sem þeir voru með og var minni flösku eiginlega bara hellt niður. Það er svona þegar blanki aðilinn ætlar að vera grand á því en það voru held ég drukknar um og yfir 20 rauðvíns flöskur í túrnum allt eðal vín fyrir utan skólpið sem ég kom með og endaði í Ísafjarðardjúpi.
Eiki

Kvenfélagið

Eftir fyrstu árin, þar sem hópurinn hafði verið nokkuð náinn, fóru menn að stefna hver sínar leið í lífinu og höfðum við áhyggjur af því að vinskapurinn myndi flosna upp. Litum í kringum okkur og sáum að mæður okkur héldu flestar góðu sambandi við vinkonur sínar en eitthvað virtist fara minna fyrir því hjá feðrunum. Því var ákveðið eina góða kvöldstund að við skyldum gera allt til að halda hópinn og hittast reglulega. Það kvöld stofnuðum við óformlegan félagsskap, nokkurs konar saumaklúbb sem við kölluðum kvenfélag í gríni, það nafn höfum við notað í næstum tuttugu ár. Stundum leið einhver tími á milli þess að kvenfélagið fundaði, kannski tveir-þrír mánuðir, en alltaf höfum við komið saman og átt góðar stundir saman. Það eru gleðifundir sem hefjast með faðmlagi. Fyrir þá okkar sem erum stuttir í annan endann var dálítið maus að faðma Regin. Svo er setið og spjallað yfir bjór, rauðvíni og á síðari tímum gosi í meira mæli. Menn metast um hver er með stærstu bumbuna og flest börn. Regin tókst aldrei að fá bumbu, hann var alltaf í formi eins og tvítugur táningur. Hafði sjálfsaga og passaði upp á heilsuna. Þó var hann sólgnastur í sælgæti af okkur og ef slíkt var á borðum varð Regin kátur. Mikið var hlustað á tónlist og ef hljóðfæri voru á staðnum byrjuðu tónlistarmennirnir yfirleitt að spila, okkur hinum til mismikillar ánægju. Oft dútlaði Regin á gítar yfir spjalli.

Regin spilar á gítar
Regin spilar á gítar í stóðréttaferð 2. október 2010

Regin var ákaflega skemmtilegur. Þótti gaman að segja frá með tilþrifum og ekki síður naut hann þess að heyra góðar sögur. Oft hlógum við þar til okkur verkjaði. Framkomu Regins er kannski best lýst sem yfirvegaðri en hlýlegri og oftar en ekki var hann með húmorinn að vopni. Þó þannig að hann sjálfur var skotspónninn. Hann kunni líka að skjóta létt á félagana, en aldrei til að særa, eins og sönnum vini sæmir. Regin var traustur og blíður vinur sem var alltaf mættur þegar eitthvað bjátaði á. Hann var bóngóður og það var alltaf auðvelt að leita til hans ef ráð vantaði, sérstaklega er varðaði hans fag, lögfræðina. Kom jafnvel fyrir að hann skammaði menn ef þeir skrifuðu undir pappíra án þess að bera þá undir hann fyrst.

Regin var hamingjusamur, sáttur við tilveruna og sinn stað í henni þrátt fyrir sviplegt fráfall föður hans árið 2010. Hann var ánægður í hjónabandi, elskaði börnin sín og naut vinnunnar. Aldrei kvartaði hann við okkur.

Steggjanir

Flestir hópar hafa einhverjar hefðir þegar kemur að steggjunum. Línur voru lagðar í vinahópnum strax í byrjun. Engar niðurlægingar, bara skemmtun í góðra vina hópi. Steggur var sendur í listflug, hópurinn fór í spa. Svo var borðaður góður matur og sötrað á víni.

Þó Regin hefði tekið upp á því að giftast fyrir vestan án okkar vinanna slapp hann ekki við steggjun og við gerðum okkur góðan dag síðar, 28. júlí 2007. Sendum hann í listflug, fórum í spa og keilu. Borðuðum svo foi gras og grilluðum nausteik í Bakkaseli og skemmtum okkur fram eftir nóttu.

Regin steggjaður
Regin á leið í listflug í júlí 2007.

Síðasta steggjun hópsins var reyndar með breyttu sniði. Ólafur Þór hafði áður farið í listflug og við brutum því hefðina og skelltum okkur í "road trip" austur á Höfn í Hornafirði. Það var frábær ferð og Regin var í góðum gír enda tók hann að sér að vera bílstjóri ferðarinnar.

Það er gaman að skoða hópmyndir úr steggjunum og sjá hvernig þessi hópur hefur þroskast og vaxið (á ýmsan hátt) gegnum árin.

Hópmynd
Hópmynd í steggjun Davíðs árið 2000. Regin, Franz Gunnarsson, Einar, Matti, Davíð, Óli, Eiki, Davíð.
Hópmynd
Hópmynd eftir flugferð Regins í júlí 2007. Einar, Óli, flugmaður, Regin, Eiki, Davíð, Matti.
Hópmynd
Hópmynd í Jökulsárlóni 2012. Regin, Davíð, Matti, Óli, Einar, Eiki.

Fjölskylduferðir

Í mörg ár ræddum við um það á kvenfélagsfundum að tímabært væri að hittast með mökum en eitthvað gekk okkkur illa að framkvæma. Við gerðum grín að þessu reglulega. Fyrir tveim árum tókst loks að smala hópnum saman í útskriftarveislu. Í kjölfarið hittumst við oftar og var ávallt glatt á hjalla. Tvær ferðir í Ármúla 2011 og 2012 með myndarlegan barnahóp standa upp úr. Þar sáum við Regin í sínu umhverfi og hann og Sara voru höfðingjar heim að sækja. Eftirminnilegt er þegar við fórum með Regin að vitja neta. Þar var Regin á heimavelli og augljóst að hann naut sín til hins ýtrasta.

Börnin horfðu líka til Regins með aðdáunarblik í auga þegar hann sýndi þeim fuglsunga eða fiskaflann sem kom í net. Hér var nátturubarn á ferð.

Farið var í gönguferðir um nágrennið þar sem okkar maður var í fararbroddi og sýndi áhugaverða staði. Gengið var upp að rótum Drangajökuls. Allir voru himinlifandi með þessar ferðir í Ármúla og tilhlökkunin var mikil að fá að koma aftur að ári.

Hópmynd í Ármúla
Hópurinn í Ármúla í ágúst 2011.

Endalokin

Í byrjun þessa árs kom áfallið þegar Regin greindist með heilaæxli. Strax var ljóst að á brattann væri að sækja en Regin var ákveðinn í að berjast og munaði þá að hafa Söru honum við hlið. Hann fór í erfiðar aðgerðir sem virtust ganga vel þó ástandið væri tvísínt á tímabil. Allir vonuðu auðvitað það besta og fólk leyfði sér bjartsýni þegar horfur virtust góðar. Regin gerði ýmislegt á árinu og hittumst við vinahópurinn meðal annars á Hvammstanga í júlí.

Í september fengum við þær skelfilegu fréttir að meinið væri komið aftur. Við heimsóttum hann á Landsspítalann og Regin hafði ekki tapað húmornum, skaut á menn léttum skotum varðandi holdafarið og mikið var hlegið þrátt fyrir aðstæður. Við áttuðum okkur satt að segja ekki alveg á því hve alvarleg staðan var fyrr en Sara ræddi við okkur eftir heimsóknina.

Allir hafa margar hliðar. Hér höfum við sagt frá Regin sem við þekktum, vini okkar. Auðvitað hélt hann sumu fyrir sig, okkur finnst yndislegt að heyra af því í dag hve rómantískur hann var við Söru. Regin okkar gaf stundum lítið fyrir slíka tilfinningasemi en að sjálfsögðu sýndi hann þeim sem hann elskaði af öllu hjarta þá hlið.

Það er skelfilega sárt að kveðja góðan vin og maður vill eiginlega ekki trúa því að þetta sé raunverulegt. Hugur okkar er hjá Söru, börnunum og hans nánustu. Regins verður saknað en minning um einstakan mann og góðan vin mun ávallt lifa í hjörtum okkar. Það er stórt skarð sem búið er að höggva í vinahópinn með fráfalli Regins.

Regin og páfagaukur
Regin heima hjá Eika og Oddný á Hvammstanga, 25. mars 2011.

Nokkrar ljósmyndir af Regin.